Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 421 . mál.


679. Frumvarp til laga



um almenna fullorðinsfræðslu.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)




I. KAFLI


Markmið og gildissvið.


1. gr.


    Markmið laga þessara er að
    stuðla að jafnrétti fullorðinna til að afla sér menntunar án tillits til búsetu, aldurs, kyns, starfs eða fyrri menntunar,
    fullorðnir hafi hliðstæð tækifæri til náms og nemendur í grunn- og framhaldsskólum,
    skapa fullorðnum skilyrði til aukins þroska og alhliða menntunar sem nýtist í starfi, fjölskyldulífi og tómstundum og stuðlar að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu,
    skapa, í samræmi við fjárveitingar á hverjum tíma, fræðsluaðilum skilyrði til að þeir geti boðið þátttakendum viðunandi nám og námsaðstöðu.

2. gr.


    Lög þessi taka til eftirfarandi þátta:
    Náms á grunn-, framhalds- eða háskólastigi sem skipulagt er sérstaklega fyrir fullorðna og ekki er fjallað um í öðrum lögum.
    Almennrar lýðfræðslu og tómstundanáms sem ekki fellur undir a-lið.
    Þróunarstarfs innan almennrar fullorðinsfræðslu.

II. KAFLI


Yfirstjórn fullorðinsfræðslu.


3. gr.


    Menntamálaráðherra skipar fullorðinsfræðsluráð til fjögurra ára í senn til að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu. Kveða skal á um skipan ráðsins í reglugerð.
     Kostnaður við fullorðinsfræðsluráð greiðist úr ríkissjóði.

4. gr.


    Verkefni fullorðinsfræðsluráðs eru að
    vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu, jafnt starfsmenntun samkvæmt sérstökum lögum sem almenna fullorðinsfræðslu,
    afla gagna og miðla upplýsingum um fullorðinsfræðslu í landinu og erlendis,
    beita sér fyrir samræmdu faglegu mati á námskeiðum,
    stuðla að samstarfi milli skóla og annarra sem hafa á hendi fullorðinsfræðslu,
    beita sér fyrir menntun kennara og leiðbeinenda fyrir fullorðna,
    sjá um önnur verkefni er ráðherra felur ráðinu eða það sjálft telur nauðsynlegt að vinna að.

III. KAFLI


Skipulag almennrar fullorðinsfræðslu.


5. gr.


    Menntamálaráðherra skipar fimm menn í nefnd um almenna fullorðinsfræðslu, þar af skulu að minnsta kosti fjórir eiga sæti í fullorðinsfræðsluráði. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Skipunartími nefndarinnar er hinn sami og fullorðinsfræðsluráðs.
     Kostnaður við nefnd um almenna fullorðinsfræðslu greiðist úr ríkissjóði.

6. gr.


    Verkefni nefndar um almenna fullorðinsfræðslu eru að
    vera menntamálaráðuneyti og fræðsluaðilum til ráðuneytis um framkvæmd almennrar fullorðinsfræðslu,
    vera tengiliður menntamálaráðuneytis við fræðsluaðila,
    fara með stjórn menntunarsjóðs fullorðinna og annast styrkveitingar úr sjóðnum, sbr. 13. gr. laga þessara,
    stuðla að útgáfu og samnýtingu námsefnis og beita sér fyrir útgáfu upplýsingarita á sviði almennrar fullorðinsfræðslu.

7. gr.


    Nemandi, sem lokið hefur námi utan hins almenna skólakerfis, sbr. lög um skólakerfi nr. 55/1974, getur fengið það metið til námseininga í skólakerfinu samkvæmt reglum sem menntamálaráðuneytið setur. Vitnisburður um námsárangur utan skólakerfisins skal metinn jafngildur vitnisburði á hliðstæðu skólastigi hins almenna skólakerfis.
     Vísa má ágreiningi um námsmat til menntamálaráðuneytisins til úrskurðar. Niðurstaða ráðuneytisins er bindandi.

8. gr.


    Við skipulagningu og framkvæmd almennrar fullorðinsfræðslu skal tekið tillit til sérþarfa þeirra sem vegna frávika frá eðlilegum þroskaferli og vegna sjúkdóma eða hvers konar fötlunar geta ekki notið venjulegrar fræðsluskipunar.

9. gr.


    Skólahúsnæði og aðstaða í skólum í eigu opinberra aðila skal að öðru jöfnu standa fræðsluaðilum til boða á þeim tímum þegar almenn kennsla eða starf í skólanum liggur niðri. Fræðsluaðila ber að semja um slík afnot við stjórnendur skóla. Um skiptingu kostnaðar og aðra notkun skólahúsnæðis til fullorðinsfræðslu skal setja ákvæði í reglugerð.

10. gr.


    Sá sem hefur með höndum almenna fullorðinsfræðslu og fær til þess fjárstuðning samkvæmt lögum þessum ber ábyrgð á þeirri fræðslu sem veitt er og að farið sé eftir gildandi lögum og reglugerðum. Kveða skal nánar á um þennan þátt í reglugerð.

IV. KAFLI


Fjármál.


11. gr.


    Stofna skal menntunarsjóð fullorðinna. Tekjur sjóðsins eru:
    Framlag ríkissjóðs á fjárlögum ár hvert.
    Aðrar tekjur er sjóðurinn kann að hafa, t.d. með útgáfu og sölu á námsefni eða annarri þjónustu.
     Menntunarsjóður fullorðinna er í umsjón menntamálaráðuneytis. Nefnd um almenna fullorðinsfræðslu er jafnframt stjórn sjóðsins. Nánar skal kveðið á um starfsemi sjóðsins í reglugerð.

12. gr.


    Stjórn menntunarsjóðs fullorðinna úthlutar styrkjum úr sjóðnum. Fræðsluaðili er njóta vill styrks úr menntunarsjóði sækir um það til sjóðstjórnar. Hann skal leggja fram áætlun um þá fræðslu sem hann hyggst bjóða á komandi missiri, fyrir 1. júní vegna haustmissiris og fyrir 1. nóvember vegna vormissiris. Heimilt er að áskilja í reglugerð að fræðsluaðili fullnægi tilteknum skilyrðum til að geta fengið styrk, svo sem um námsaðstöðu, kennslukrafta eða námsefni. Heimilt er að veita tiltekinni menntun forgang að styrkjum.
     Styrki til fullorðinsfræðslu má veita
    fræðsluaðilum,
    fjölmiðlum eða fræðsluaðila er samvinnu hefur við fjölmiðil um verkefni á sviði almennrar fullorðinsfræðslu,
    til þróunarverkefna og útgáfu á vegum nefndar um almenna fullorðinsfræðslu eða fræðsluaðila,
    til annarra verkefna á sviði almennrar fullorðinsfræðslu samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar.
     Nánari ákvæði um úthlutun styrkja skal setja í reglugerð.

13. gr.


    Námsefni, sem samið er með tilstyrk menntunarsjóðs fullorðinna, skal vera öðrum fræðsluaðilum til frjálsra afnota, enda beri þeir ábyrgð á að notkun þeirra á efninu brjóti ekki í bága við höfundarétt.

14. gr.


    Fræðsluaðilum, sem rétt eiga á styrk samkvæmt lögum þessum, er skylt að veita menntamálaráðuneytinu upplýsingar um það nám sem boðið hefur verið upp á. Nánari ákvæði um þetta skal setja í reglugerð.


V. KAFLI


Um gildistöku og reglugerðir.


15. gr.


    Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð, þar á meðal um afmörkun og gildissvið, að fengnum tillögum nefndar um almenna fullorðinsfræðslu.

16. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Lögin skal endurskoða eigi síðar en fjórum árum eftir gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Frumvarp þetta var lagt fram sem stjórnarfrumvarp á 112. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Frumvarpið var lagt fram öðru sinni á 113. löggjafarþingi. Þá höfðu verið gerðar breytingar á 15. gr. sem varð 16. gr. þar sem bætt hafði verið við nýrri grein, 14. gr., um upplýsingaskyldu. Að öðru leyti var frumvarpið óbreytt. Frumvarpið varð eigi að lögum.
     Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn. Það er óbreytt frá fyrri gerð nema 3. gr. hefur verið endurskoðuð.

Inngangur.


    Með bréfi dagsettu 14. apríl 1988 skipaði Sverrir Hermannsson, þáverandi menntamálaráðherra, eftirtalda í nefnd um fullorðinsfræðslu: Karl Kristjánsson, deildarsérfræðing í menntamálaráðuneyti, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar, Birnu Bjarnadóttur, skólastjóra Bréfaskólans, Guðrúnu Halldórsdóttur, forstöðumann Námsflokka Reykjavíkur, Margréti S. Björnsdóttur, endurmenntunarstjóra við Háskóla Íslands, Þuríði Magnúsdóttur, forstöðumann Fræðslumiðstöðvar iðnaðarins, og Helga Guðmundsson, þáverandi formann Menningar- og fræðslusambands alþýðu. Í júní 1988 tók Guðrún Friðgeirsdóttir, skólastjóri Bréfaskólans, við af Birnu Bjarnadóttur er látið hafði af starfi við skólann.
     Nefndinni var m.a. ætlað að vera menntamálaráðuneytinu til ráðgjafar um fullorðinsfræðslumálefni og undirbúa tillögur um skipan þeirra mála.
     Í maí 1989 fól Svavar Gestsson, þáverandi menntamálaráðherra, nefndinni að semja frumvarp til laga um fullorðinsfræðslu, en áður höfðu menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra komið sér saman um að starfsmenntun í atvinnulífinu skyldi heyra undir félagsmálaráðuneyti en öll önnur fullorðinsfræðsla undir menntamálaráðuneyti.
     Um líkt leyti fól Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra nefnd að semja frumvarp til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Náið samráð var á milli nefndanna með því að Gylfi Kristinsson, formaður nefndar félagsmálaráðherra, tók sæti í fullorðinsfræðslunefnd og Karl Kristjánsson tók sæti í nefnd um starfsmenntun í atvinnulífinu.
     Guðný Helgadóttir kom aftur til starfa í menntamálaráðuneytinu í nóvember 1989 og tók þá sæti í nefndinni.
     Við samningu þessa frumvarps hafði nefndin haldið 20 fundi. Á lokastigi starfaði Helgi Guðmundsson tímabundið fyrir nefndina.

Fullorðinsfræðsla.


    Notkun hugtaka um þetta svið menntunar hefur verið nokkuð á reiki. Hér er valinn sá kostur að nota orðið fullorðinsfræðsla sem samheiti en greina fræðsluna í starfsmenntun í atvinnulífinu annars vegar og almenna fullorðinsfræðslu hins vegar. Með starfsmenntun í atvinnulífinu er átt við menntun sem fólk á vinnumarkaði aflar sér í því skyni að bæta eða auka þekkingu sína og færni til starfs, eða vegna breytinga á störfum og starfsháttum. Almenn fullorðinsfræðsla tekur til allrar annarrar fræðslu fyrir fullorðna hvort sem hún fer fram á vegum skóla, svo sem í öldungadeildum framhaldsskóla, eða annarra.
     Frumvarp þetta tekur til þeirrar almennu fullorðinsfræðslu sem fram fer utan skólakerfisins, með þeim takmörkunum sem fram koma í frumvarpinu og reglugerðum sem kunna að verða settar.

Almenn fullorðinsfræðsla og starfsmenntun í atvinnulífinu.


    Á undanförnum árum hafa verið samin nokkur frumvörp um fullorðinsfræðslu sem ekki hafa náð fram að ganga. Þeirra viðamest er frumvarp frá árinu 1974. Árið 1980 var síðast lagt fram frumvarp um fullorðinsfræðslu. Það var samið af nefnd er Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra skipaði árið 1978. Frumvarpið var lagt fram af Vilmundi Gylfasyni, þáverandi menntamálaráðherra, í febrúar 1980 en hlaut ekki afgreiðslu.
     Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á fullorðinsfræðslu. Framboðið hefur aukist og þátttakan einnig. Einna mest hefur breytingin orðið á starfsmenntun í atvinnulífinu þar sem átak hefur verið gert til að mennta ófaglært fólk í atvinnugreinum. Stærsta átakið í þeim efnum er í fisk-, vefjar- og matvælaiðnaði.
     Á hinn bóginn hefur mjög skort á að til væru samræmdar reglur um fyrirkomulag náms fyrir fullorðna. Aðstöðumunur eftir landshlutum og starfsstéttum er einnig mikill. Víða um land er ekki boðið upp á neina fræðslu fyrir fullorðna í heimabyggð og í stuttu máli má segja að þær starfsstéttir, sem mesta menntunina hafa fyrir, hafi besta aðstöðu til að bæta við menntun sína.
     Fullorðinsfræðsla fer aðallega fram með eftirfarandi hætti:

Almenn fullorðinsfræðsla.


    Fræðsla sem fullorðnum stendur til boða í skólakerfinu, t.d. í öldungadeildum framhaldsskóla og námskeið á vegum annarra skóla. Ekki liggur fyrir hve miklu ríkið kostar til þessarar starfsemi en hér er um verulegar fjárhæðir að ræða.
    Tómstundanám af ýmsu tagi er boðið af mörgum aðilum. Nefna má dæmigerð tómstundanámskeið sem ekki tengjast skólagöngu eða starfi, svo sem í tungumálum, listum, tölvunotkun og fjölmörgu fleira. Nám af þessu tagi bjóða mjög margir aðilar, svo sem framhaldsskólar, námsflokkar, fræðslusamtök, einkaskólar og einstaklingar. Enda þótt námið sé ekki beinlínis tengt skólagöngu eða starfi leiðir það mjög oft til þess að þátttakendur taka að stunda nýtt nám eða auka við starfsþekkingu sína.

Starfsmenntun í atvinnulífinu.


                  Starfsmenntun í atvinnulífinu sem ýmsir starfshópar eiga kost á. Hér má nefna námskeið fyrir fiskvinnslufólk, starfsfólk í fataiðnaði og vinnuvélamenn, eftirmenntun iðnaðarmanna, eftirmenntun háskólamanna, námskeið á vegum Iðntæknistofnunar o.fl. Starfsmenntunin er boðin af mörgum aðilum, innan fyrirtækja og utan. Fjárveitingar til starfsmenntunar eru afar mismunandi og aðstæður starfshópanna til að nýta sér hana einnig. Ríkið hefur veitt talsvert fé til þessarar starfsemi, bæði með samningum við sína starfsmenn og sem þriðji aðili að samningum á hinum almenna vinnumarkaði. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað við starfsmenntun.

    Auk þess má nefna margvíslega félagslega menntun sem aðilar á vinnumarkaði bjóða fólki upp á.
     Aðstaða nemenda til að taka þátt í almennri fullorðinsfræðslu eða starfsmenntun í atvinnulífinu er afar mismunandi. Þeir sem lakast eru settir eiga ekki kost á neinum styrkjum og verða að sækja námið utan vinnutíma eða verða af vinnulaunum ella. Á hinn bóginn eiga allstórir hópar kost á verulegum styrkjum, allt upp í að allur kostnaður sé greiddur af endurmenntunarsjóðum og vinnuveitendum, þar með talið ferðakostnaður og vinnulaun.
     Öldungadeildir framhaldsskóla falla ekki undir frumvarp þetta, enda er fjallað um fullorðinsfræðslu framhaldsskólanna í lögum um framhaldsskóla. Í framhaldsskólalögunum og reglugerð um framhaldsskóla er gerð grein fyrir hvernig fjárveitingum til þeirrar starfsemi skuli háttað.
     Það frumvarp, sem hér liggur fyrir, fjallar því næstum eingöngu um þann hluta fullorðinsfræðslu er fram fer utan hins almenna skólakerfis og nefnd er almenn fullorðinsfræðsla. Þó fjallar kaflinn um yfirstjórn fullorðinsfræðslu að hluta um starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. athugasemd við 3. gr. Rétt er að leggja áherslu á að við setningu laga um starfsmenntun í atvinnulífinu og samningu reglugerða á grundvelli hvoru tveggja laganna er nauðsynlegt að gæta fyllsta samræmis þannig að öll fullorðinsfræðsla eigi heima undir tilteknum lögum og geti notið tilstyrks sem í þeim lögum felst.

Nokkur orð um fullorðinsfræðslu annars staðar á Norðurlöndum.


    Fullorðinsfræðsla á sér langa hefð í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Það er sameiginlegt löndunum að framboðið er mikið og þátttaka einnig. Ætla má að um 20–25% fólks á vinnumarkaði taki árlega þátt í einhvers konar fullorðinsfræðslu. Í mörgum tilvikum greiða þátttakendur ekkert fyrir námið og í sumum greiða þeir sem nemur þriðjungi kennslukostnaðar.
     Í Svíþjóð hefur launafólk lögbundinn rétt til að fá leyfi frá störfum til að stunda nám. Einnig getur það samkvæmt lögum sótt um styrki og lán vegna náms. Í Finnlandi eru lög um lán og styrki fyrir fullorðna. Í Danmörku voru á árinu 1989 samþykkt lög um styrki til fullorðinna með stutta skólagöngu sem óska eftir að sækja nám í vinnutímanum. Geta þeir fengið styrk sem nemur hæsta taxta atvinnuleysisdagpeninga í 16 vikur til að stunda fullt nám og samsvarandi ef náminu er dreift á lengri tíma.
     Ríki, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins, fræðslusamtök og fyrirtæki hafa fullorðinsfræðslu með höndum. Á seinni árum hefur hlutur fyrirtækjanna farið vaxandi vegna breyttrar tækni og nýrrar framleiðslu þar sem nauðsynlegt er að endurmennta og þjálfa starfsfólk í ljósi breyttra aðstæðna. Þess má geta að tilkoma svonefndra “förnyelsesfonder“ í Svíþjóð, sem fyrirtæki urðu að greiða ákveðinn hluta af hagnaði sínum í, jók mjög endurmenntun í tengslum við atvinnulífið.
     Í öllum löndunum renna háar fjárhæðir til fullorðinsfræðslu. Á næstu árum og áratugum er gert ráð fyrir að þörf verði á auknu fé í þessu skyni. Féð kemur í aðalatriðum úr fjórum áttum þ.e. framlög ríkis og sveitarfélaga, gjaldtaka af atvinnurekendum og launafólki og frá fyrirtækjum sem sjálf hafa með höndum mikla starfsmenntun vegna starfsemi sinnar. Má t.d. geta þess að árið 1987 var varið rúmum 3 milljörðum danskra króna, þ.e. um 30 milljörðum íslenskra króna, til almennrar fullorðinsfræðslu í Danmörku. Þá er ekki talin með starfsmenntun í tengslum við atvinnulífið.
     Reglur um fjárveitingar og styrki til einstaklinga eru margvíslegar og margbrotnar. Þeim fylgir því mikil skriffinnska sem þeir er með fullorðinsfræðsu fara telja að sé óæskileg. Þó ber að leggja áherslu á að þetta kemur ekki í veg fyrir að fullorðinsfræðsla blómstri í löndunum, enda er þörf og eftirspurn aðalhvatinn.

Efni frumvarpsins.


    Talið er rétt að forðast beri flóknar reglur um fullorðinsfræðslu og ekki sé ástæða til að lögfesta viðamikið stjórnkerfi í kring um þetta menntunarstig. Mikilvægt er að fullorðinsfræðslulög drepi ekki í dróma það frumkvæði sem þegar er fyrir hendi á þessu sviði hjá samtökum, fyrirtækjum, skólum og einstaklingum, heldur hið gagnstæða. Löggjöfin ætti heldur ekki að leiða til óæskilegrar miðstýringar eða óþarfa skriffinnsku. Í annan stað ætti skólakerfið að starfa eins og kostur er með hinum fjölmörgu aðilum sem fást við fullorðinsfræðslu. Með þeim hætti yrði til fjölbreytt framboð á skipulegri fræðslu fyrir fullorðna og reynt að gæta þess að þekking, húsa- og tækjakostur og námsgögn nýtist sem best.
     Með frumvarpi þessu er leitast við að ná fram fyrrgreindum markmiðum en jafnframt lögð áhersla á að löggjöf um almenna fullorðinsfræðslu leiði til bættrar aðstöðu fyrir þá þjóðfélagshópa sem minnsta menntun hafa haft og lakasta námsaðstöðu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni koma fram markmið laganna sem beinast að hvoru tveggja: að stuðla að jafnrétti fullorðinna til að afla sér menntunar án tillits til búsetu, aldurs, kyns, starfs eða fyrri menntunar og að skapa fullorðnum einstaklingum almennt betri skilyrði til að taka þátt í fullorðinsfræðslu. Jafnframt er stefnt að því að skapa fræðsluaðilum betri starfsskilyrði þannig að þeir geti boðið fullorðnu fólki upp á fjölbreytta kosti. Þá kemur einnig fram í greininni að fullorðinsfræðsla miði að því að auka persónulegan þroska og hæfni einstaklingsins, sem og þörf samfélagsins fyrir aukna menntun og starfshæfni.

Um 2. gr.


    Í greininni kemur fram að lögin taki til almennrar fullorðinsfræðslu, þ.e. náms á grunn-, framhalds- eða háskólastigi sem skipulagt er sérstaklega fyrir fullorðna og ekki er fjallað um í öðrum lögum, einnig til almennrar lýðfræðslu og tómstundanáms, svo og þróunarstarfs innan almennrar fullorðinsfræðslu. Í þessu sambandi er rétt að vekja enn athygli á nauðsyn á heildaryfirsýn. Því þarf að skoða greinina í ljósi frumvarps um starfsmenntun í atvinnulífinu þar sem frumvörpunum er saman ætlað að ná yfir alla fullorðinsfræðslu utan skólakerfisins.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir því að menntamálaráðherra skipi fullorðinsfræðsluráð sem hafi það meginhlutverk að vera stjórnvödum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu. Í 4. gr. eru frekari ákvæði um verkefni ráðsins.
     Ekki er talið rétt að binda í lögum samsetningu og stærð ráðsins þar sem slíkt getur verið háð aðstæðum á hverjum tíma. Þykir því rétt að ákvæði um þetta verði sett í reglugerð.
     Í greininni er kveðið á um að fullorðinsfræðsluráð fjalli um allar greinar fullorðinsfræðslu. Vonast er til að þetta fyrirkomulag leiði til nauðsynlegs samræmis og samstarfs þeirra er fást við fullorðinsfræðslu. Þetta er m.a. nauðsynlegt til að hafa áhrif á að fjármunir, aðstaða, námsgögn og þekking nýtist sem best.

Um 4. gr.


    Í greininni er fjallað um verkefni fullorðinsfræðsluráðs. Ráðið á að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu, svo sem námsframboð, forgang verkefna og hópa. Auk þess lúta verkefni ráðsins að söfnun og miðlun upplýsinga um fullorðinsfræðslu, bæði starfsmenntun og almenna fullorðinsfræðslu, samræmingu á námsefni, námsframboði og faglegu mati á þeirri fræðslu sem í boði er, samstarfi milli skóla og annarra fræðsluaðila, að því að stuðla að betri menntun kennara og leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu og að vera menntamálayfirvöldum og fræðsluaðilum til ráðuneytis.
     Menntamálaráðuneytið og fullorðinsfræðsluráð þurfa að verða miðstöð fyrir upplýsingar um fullorðinsfræðslu. Því er nauðsynlegt að í ráðuneytinu hafi tilteknir aðilar málefni fullorðinsfræðslu á sinni könnu.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að skipuð verði fastanefnd um almenna fullorðinsfræðslu sem verði menntamálaráðuneyti og fræðsluaðilum til ráðuneytis og aðstoðar. Þetta er í samræmi við það sem lagt er til í frumvarpi um starfsmenntun í atvinnulífinu og felur í sér að á vegum hvors ráðuneytis, menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, starfi sérstakir samstarfshópar um hvort svið fullorðinsfræðslu fyrir sig. Skipunartími nefndarinnar verði hinn sami og fullorðinsfræðsluráðs.

Um 6. gr.


    Í greininni eru verkefni nefndar um almenna fullorðinsfræðslu nánar skilgreind, en þau eru að vera menntamálaráðuneyti og fræðsluaðilum til ráðuneytis um framkvæmd, þar með talið námsframboð almennrar fullorðinsfræðslu, að vera tengiliður milli menntamálaráðuneytis og fræðsluaðila, að fara með stjórn menntunarsjóðs fullorðinna og annast styrkveitingar úr sjóðnum, að stuðla samnýtingu og útgáfu námsefnis og beita sér fyrir útgáfu upplýsingarita. Nefnd um almenna fullorðinsfræðslu mun gegna veigamiklu hlutverki þar sem gert er ráð fyrir að í henni verði einstaklingar er séu í nánu sambandi við það sem er að gerast á sviði almennrar fullorðinsfræðslu á hverjum tíma. Nefndin á ekki að sinna málefnum starfsmenntunar en hefur væntanlega mikla samvinnu við nefnd um starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. skipun í fullorðinsfræðsluráð.

Um 7. gr.


    Greinin fjallar um að meta skuli vitnisburð frá fræðsluaðilum utan skólakerfisins jafngildan vitnisburði skólans eftir því sem við getur átt.
     Segja má að úrval þess sem stendur til boða af almennri fullorðinsfræðslu sé orðið býsna fjölbreytt. Fræðslan er hins vegar misjöfn að gæðum og mörg dæmi eru um að ekkert samband sé á milli skólanáms og þess sem fræðsluaðilar bjóða enda þótt það sé kynnt sem ígildi skólanáms. Því er mikilvægt að taka af tvímæli um mat á námi utan skólakerfisins á sama mælikvarða og það er skólarnir bjóða svo að nemendur geti verið vissir um að námið sé sambærilegt þar sem til þess er ætlast. Því þarf menntamálaráðuneytið að setja reglur um þetta. Ef upp kemur ágreiningur um námsmat er lagt til að honum sé vísað til menntamálaráðuneytisins til úrskurðar og að niðurstaða ráðuneytisins sé bindandi.

Um 8. gr.


    Greinin fjallar um að fræðsluaðili skuli skipuleggja framboð sitt með tilliti til þeirra er vegna fötlunar sinnar geta ekki hagnýtt sér námið á sama hátt og aðrir. Slíkar þarfir geta tekið til margra þátta, svo sem námsefnis, sérkennslu á vissum sviðum, aðstöðu og stærðar námshópa o.fl. Við skipulagningu námsins ber því jafnan að hafa í huga að það standi öllum til boða og leita leiða til að námsefni og námsaðstaða geti hentað þessum hópum sem öðrum þannig að þeir blandist öðrum hópum í námi, svo sem kostur er. Eitt af mikilvægum verkefnum menntunarsjóðs fullorðinna er að greiða fyrir því með styrkveitingum að fatlaðir geti notið sömu fræðslu og aðrir.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um heimild fræðsluaðila til afnota af því skólahúsnæði sem er í eigu opinberra aðila. Mikilvægt er að gott samstarf takist milli skóla og fræðsluaðila um notkun aðstöðu og húsnæðis skóla. Eðlilegt er að skólar, sem hýsa kennslu á vegum annarra, fái greiddan þann kostnað sem af því hlýst. Í greininni er gert ráð fyrir að reglur þar að lútandi verði settar í reglugerð.

Um 10. gr.


    Greinin er um ábyrgð fræðsluaðila á þeirri fræðslu er hann býður fram. Nauðsynlegt er að þessi ábyrgð fari ekki milli mála, ekki síst til þess að nemandi geti reitt sig á að það nám, er hann sækir, sé metið í skólakerfinu eða sé nokkurs virði á vinnumarkaði. Lagt er til að frekari ákvæði um hvað felst í þessari ábyrgð verði sett í reglugerð.

Um 11. gr.


    Í greininni er lagt til að stofnaður verði menntunarsjóður fullorðinna. Til sjóðsins renni framlög úr ríkissjóði ásamt öðrum tekjum sem sjóðnum er heimilað að afla sér með útgáfu o.fl. Framlag ríkissjóðs verði ákveðin í fjárlögum hvers árs.
     Nefnd sú, sem vann drög að frumvarpinu, lagði til að framlag ríkissjóðs yrði ekki lægra en sem nemur 5% af framlagi til framhaldsskóla. Í umfjöllun ráðuneytisins um frumvarpsdrögin var ákveðið að breyta þessu atriði til samræmis við ósk fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.
     Þá er í greininni ákveðið að nefnd um almenna fullorðinsfræðslu skuli vera stjórn sjóðsins og að hann verði í umsjón menntamálaráðuneytis.

Um 12. gr.


    Í greininni er ákveðið að stjórn menntunarsjóðs fullorðinna veiti styrki til almennrar fullorðinsfræðslu í samræmi við reglugerð þar að lútandi. Að samþykktum fjárlögum á nefndin að geta gefið fyrirheit um styrkveitingar í stórum dráttum og tekið ákvarðanir um hvaða þætti leggja þarf áherslu á.
     Við úthlutun úr menntunarsjóði má veita tiltekinni menntun forgang. Þetta er lagt til í því skyni að veita megi þeim sem minnsta menntun hafa hlotið greiðari leið að nýrri þekkingu.
     Úr menntunarsjóði fullorðinna rennur fyrst og fremst fé til þeirra sem sjá um og skipuleggja fullorðinsfræðslu. Þá er sjóðnum ætlað að veita fé til þróunarstarfs, skipulags- og undirbúningsvinnu, samninga og útgáfu námsefnis og til greiðslu stjórnunar- og kennslukostnaðar.
     Þá er heimilt að veita fjölmiðlum eða öðrum, sem vinna með fjölmiðlum að fullorðinsfræðsluverkefnum, styrki til þeirra. Hér er um að ræða verulega breytingu frá eldri frumvörpum en í þeim hefur jafnan verið fjallað eingöngu um Ríkisútvarpið. Hér þykir ekki ástæða til að fjalla um Ríkisútvarpið og er vísað til 9. gr. frumvarps til útvarpslaga þar sem segir: „Ríkisútvarpið skal starfrækja kennsluútvarp í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skal veita til þess fé á fjárlögum. Nánar skal kveðið á um þá starfsemi í reglugerð.“ Verður því að gera ráð fyrir að stofnuninni verði tryggðar fjárveitingar til kennsluútvarps (fræðsluvarps) eftir öðrum leiðum en aðrir fjölmiðlar geti á hinn bóginn fengið stuðning til fullorðinsfræðslu úr menntunarsjóði fullorðinna.
     Þetta er eðlilegt nýmæli frá fyrri frumvörpum þar sem nú eru komnir til sögunnar nýir miðlar sem sjálfsagt er að reikna með að taki upp skipulega fullorðinsfræðslu í framtíðinni og að þeir geti fengið styrk til hennar líkt og aðrir fræðsluaðilar.
     Markmiðið með styrkveitingunum er að stuðla að fjölbreyttu framboði á sviði fullorðinsfræðslu, draga úr kostnaði nemandans við námið og stuðla að því að jafna aðstöðu fullorðinna er hug hafa á skemmra eða lengra námi. Þá er gert ráð fyrir að veita styrki til þróunarverkefna og námsgagnagerðar en oft skortir talsvert á að fræðsluaðilar hafi nauðsynlegt bolmagn til slíkra verkefna. Þá hefur sjóðstjórn svigrúm til að veita styrki til annarra verkefna sem hún metur mikilvæg.

Um 13. gr.


    Greinin fjallar um samnýtingu námsefnis. Þeim er nýtur styrks til námsefnisgerðar er gert að heimila öðrum fræðsluaðilum afnot af efninu, enda verði hinir nýju notendur ábyrgir fyrir því að notkun þeirra á efninu brjóti ekki í bága við höfundarétt. Oft hefur verið á það bent að námsefni í fullorðinsfræðslu nýtist ekki sem skyldi og verið sé að semja sambærilegt námsefni á mismunandi stöðum á sama tíma. Þeir sem annast skylda fræðslu hafi ekki alltaf greiðan aðgang að slíku efni. Með greininni er gerð tilraun til að ráða bót á þessu.

Um 14. gr.


    Markmið greinarinnar er að gera yfirvöldum kleift að krefjast upplýsinga frá fræðsluaðilum, m.a. um framkvæmd námsins og þátttöku í því.

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast varla skýringa.

Um 16. gr.


    Þar sem að ýmsu leyti um er að ræða nýtt viðfangsefni er talið æskilegt að endurskoða lögin, að fenginni reynslu, eigi síðar en að fjórum árum liðnum.


Fylgiskjal I.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um almenna fullorðinsfræðslu.


(24. mars 1992.)


    Frumvarpið fjallar nær eingöngu um þann hluta fullorðinsfræðslu sem fram fer utan hins almenna skólakerfis og nefnd er almenn fullorðinsfræðsla. Ef frumvarp þetta verður að lögum getur það haft nokkurn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð í för með sér en framlag til almennrar fullorðinsfræðslu er 15,9 m.kr. í fjárlögum 1992 (02–440 Fullorðinsfræðsla). Erfitt er að áætla nákvæmar fjárhæðir en kostnaðaráhrifin koma helst fram í eftirfarandi greinum frumvarpsins:
3. gr.    Menntamálaráðherra skipar fullorðinsfræðsluráð til fjögurra ára í senn. Kveða skal á um skipan ráðsins í reglugerð.
5. gr.    Menntamálaráðherra skipar fimm menn í nefnd um almenna fullorðinsfræðslu til fjögurra ára í senn.
9. gr.    Skólahúsnæði og aðstaða í skólum í eigu opinberra aðila skal að öðru jöfnu standa fræðsluaðilum til boða á þeim tímum þegar almenn kennsla eða starf í skólanum liggur niðri. Um skiptingu kostnaðar skal setja ákvæði í reglugerð.
11. gr.    Stofna skal menntunarsjóð fullorðinna og tekjur sjóðsins eru m.a. framlag ríkissjóðs á fjárlögum ár hvert.
    Einnig má gera ráð fyrir að verði frumvarpið að lögum þýði það aukna vinnu í menntamálaráðuneyti hvort sem það birtist í fjölgun stöðugilda eða aukinni yfirvinnu.
     Ef tekið er mið af tilgreindum hlutverkum fullorðinsfræðsluráðs og nefndar um almenna fullorðinsfræðslu er það mat fjármálaráðuneytis að kostnaðarauki vegna 3. og 5. gr. og vegna aukinnar vinnu í menntamálaráðuneyti sé varlega áætlaður 5–10 m.kr. Kostnaðaráhrif af 9. gr. er ekki hægt að spá fyrir um. Ef ákvæðum um menntunarsjóð verður fylgt að miklu eða öllu leyti má gera ráð fyrir að framlag ríkissjóðs þurfi að vera einhverjir tugir milljóna króna á ári hverju. Ekki er ljóst hversu stór hluti kostnaðar vegna fullorðinsfræðslu í fjárlögum 1992 fellur niður á móti, en þar er m.a um að ræða styrkveitingar sem falla undir ákvæði um menntunarsjóðinn.
     Í frumvarpi þessu er þeirri spurningu ósvarað hvort eða hver þátttaka væntanlegra nemenda í kostnaði eigi að vera. Í því samhengi er bent á að í lögum um framhaldsskóla nr. 57/1988, með síðari breytingum, er kveðið á um að nemendur í öldungadeildum skulu greiða sem svarar til sem næst þriðjungs kennslulauna.
     Vakin er athygli á hvernig frumvarp til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu, sem lagt var fram á þessu þingi, tengist þessu frumvarpi. Þar er tekið á menntun sem fólk á vinnumarkaði aflar sér í því skyni að bæta eða auka þekkingu sína og færni til starfs. Frumvarp til laga um almenna fullorðinsfræðslu tekur til allrar annarrar fræðslu fyrir fullorðna. Þessar tvær greinar fullorðinsfræðslu tengjast með skipan fullorðinsfræðsluráðs sem kveðið er á um í þessu frumvarpi og er ráðinu ætlað að fjalla um allar greinar fullorðinsfræðslu. Í fjárlögum 1992 er fjárveiting að upphæð 48 m.kr. til starfsmenntunar í atvinnulífinu.


Fylgiskjal II.


Niðurstaða viðræðna fulltrúa félagsmálaráðuneytis og


menntamálaráðuneytis um fullorðinsfræðslu.


(24. febrúar 1989.)


    Fulltrúar félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis hafa samkvæmt samkomulagi félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra komið saman til fjögurra funda í því skyni að ræða samstarf á sviði fullorðinsfræðslu. Í viðræðunum hafa tekið þátt: Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Gylfi Kristinsson, Helgi Guðmundsson, Karl Kristjánsson, Þráinn Hallgrímsson og Þuríður Magnúsdóttir. Á framangreindum fundum hafa verið lögð fram eftirfarandi skjöl:
    Erindi um samhæfingu í endurmenntun og fullorðinsmenntun með stofnun símenntunarnefndar (menntamálaráðuneytið).
    Erindasafn um starfsmenntun í atvinnulífinu (félagsmálaráðuneytið).
    Álitsgerð um starfsmenntun í atvinnulífinu (félagsmálaráðuneytið).
    Ábendingar um efni hugsanlegra fullorðinsfræðslulaga (menntamálaráðuneytið).
     Á viðræðufundunum hefur einkum verið rætt um það hvort hugsanlegt sé að setja heildarlöggjöf um fullorðinsfræðslu sem m.a. taki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Einnig hefur verið rætt um tillögur um samhæfingu í endurmenntun og fullorðinsfræðslu með stofnun símenntunarráðs. Niðurstaðan úr viðræðunum er eftirfarandi:
     Viðræðunefndin hefur fjallað um ábendingar um efni hugsanlegrar fullorðinsfræðslulaga og álitsgerð um starfsmenntun í atvinnulífinu. Einkum hefur verið rætt um það hvort gerlegt sé að setja eina löggjöf sem taki til allrar fullorðinsfræðslu, þar með talinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu eins og hún er skilgreind í álitsgerð vinnuhóps á vegum félagsmálaráðuneytisins. Eftir ítarlegar umræður er niðurstaðan sú að rétt sé að sett verði sérstök löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem heyri til verksviðs félagsmálaráðuneytisins og önnur um fullorðinsfræðslu er heyri til verksviðs menntamálaráðuneytisins. Meginröksemdin fyrir niðurstöðunni byggist á því að til starfsmenntunar í atvinnulífinu er oft stofnað með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem í sumum tilvikum skuldbinda sig til að standa straum af hluta kostnaðar. Forsendur slíkra samningsákvæða eru breytingar á vinnumarkaðinum vegna tæknibreytinga eða af öðrum ástæðum. Hér er því fyrst og fremst um vinnumarkaðsmálefni að ræða þar sem forsendur árangurs eru sem mest áhrif aðila vinnumarkaðarins á alla framkvæmd.

I. Löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu.


    Í samræmi við framangreint mundi löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu skiptast í eftirfarandi kafla.

     1.    Markmið og skilgreiningar.
    
Í þessum kafla komi fram markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu. Samkvæmt álitsgerð vinnuhóps félagsmálaráðuneytisins er það tvíþætt:
     Markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu er að bæta verkmenntun og vinnuumhverfi, auka framleiðni fyrirtækja og treysta stöðu einstaklingsins á vinnumarkaðinum með því að gera honum kleift að takast á við ný eða breytt verkefni í kjölfar nýrrar tækni eða laga sig að breyttum atvinnuháttum.
     Markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu er einnig að auka virkt atvinnulýðræði með því að búa starfsmenn undir þátttöku og ábyrgð í stjórnun og rekstri fyrirtækja.
     Enn fremur komi fram skilgreining á heitinu starfsmenntun í atvinnulífinu. Í álitsgerð vinnuhópsins er átt við skipulegt nám (námskeið) sem fólk á vinnumarkaði stundar í því skyni að bæta eða auka færni sína og þekkingu til þeirra starfa sem það fæst við eða vegna breytinga á störfum og starfsháttum. Starfsmenntun í atvinnulífinu tekur til endurmenntunar hópa og einstaklinga, svo og viðbótarmenntunar (eftirmenntunar) faglærðra og grunnmenntunar ófaglærðra sem fram fer á vinnumarkaðinum.

     2. Yfirstjórn.
    
Í þessum kafla komi fram stjórn og eftirlit með þeirri starfsmenntun sem nýtur stuðnings samkvæmt lögunum. Félagsmálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirrar fræðslu sem fjallað er um í lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu, sjá nánar álitsgerð vinnuhóps félagsmálaráðuneytisins, bls. 25–27.

     3. Fjármál.
    
Hér verði lögð áhersla á stofnun sjóðs sem geti fengið tekjur eftir ýmsum leiðum, sbr. álitsgerð vinnuhóps félagsmálaráðuneytisins, bls. 28–29. Lögð verður áhersla á að þær umsóknir, sem byggjast á að samtök aðila vinnumarkaðarins leggi fram fé eða aðra fyrirgreiðslu, njóti ákveðins forgangs um opinberan stuðning.

     4. Ýmis ákvæði.
    
Í þessum kafla verði m.a. ákvæði um eftirlit með framkvæmd námskeiða sem stofnað er til eftir lögunum, upplýsingaskyldu þeirra sem hljóta stuðning o.fl.
     Einnig verði kveðið á um mat á námi sem stundað er innan ramma laga um starfsmenntun í atvinnulífinu til áfanga í almenna skólakerfinu og þá verði vísað til reglna sem menntamálaráðuneytið setur.

     Enn fremur verði vísað til reglna sem menntamálaráðuneytið setur varðandi notkun skólahúsnæðis til námskeiðahalds sem kostað er með opinberum stuðningi.

II. Lög um fullorðinsfræðslu.


    Lögin taki til allra sviða fullorðinsfræðslu að undanskilinni starfsmenntun í atvinnulífinu. Fullorðinsfræðsla greinist í þrjá aðalþætti:
     1. Almennt nám sem er hliðstætt því sem boðið er á öllum stigum skólakerfisins. Í aðalatriðum mundu viðkomandi skólar bjóða þetta nám og um það gildi einnig í öllum megindráttum sömu kröfur og gerðar eru á viðkomandi skólastigi. Auk skólanna gætu aðilar eins og námsflokkar og fullorðinsfræðslusamtök boðið upp á almennt nám.
     2. Vinnumarkaðsmenntun. Hér er aðallega um að ræða fræðslu sem boðin er fólki á vinnumarkaði og tengd er störfum þess. Hér getur verið um að ræða starfsmenntun vegna starfa sem fólk er í, endurmenntun vegna nýrra starfa og félagsleg menntun, t.d. fyrir trúnaðarmenn og þá sem gegna störfum fyrir aðila vinnumarkaðarins o.fl. Um þennan þátt fullorðinsfræðslu leggur nefndin til að sett verði sérstök löggjöf, sbr. það sem segir í kafla I.
     3. Frjálst nám sem ekki heyrir til liðum 1 og 2. Undir það heyrir hvers konar frístundanám sem fólk vill afla sér, án þess að stefna að prófum, sem varðar starf þess. Hér má nefna tungumálanám, nám á listasviði og fjöldamargt annað.
     Í fyrsta kafla löggjafar um fullorðinsfræðslu yrðu almenn ákvæði um markmið laganna, um framkvæmd fullorðinsfræðslu, notkun þeirrar aðstöðu sem til er í skólum ríkis og sveitarfélaga, samband við Ríkisútvarp, fjarnám o.fl. Hér yrði einnig fjallað um gerð námsgagna, sérstakar þarfir afmarkaðra hópa, t.d. fatlaðra o.fl.
     Í öðrum kafla verði ákvæði um fullorðinsfræðsluráð og yfirstjórn fullorðinsfræðslu í landinu. Í ráðinu gætu átt sæti fulltrúar ráðuneyta sem fara með málefni sem snerta fullorðinsfræðslu auk fulltrúa þeirra aðila sem hafa á hendi fullorðinsfræðslu utan skólakerfisins. Til greina gæti komið að ráðið yrði samsett úr þremur hópum sem hver hefði með höndum yfirumsjón með sínum þætti fullorðinsfræðslu, sbr. I. kafla. Hér yrði einnig kveðið á um verkefni fullorðinsfræðsluráðs.


     Verkefni fullorðinsfræðsluráðs verði:
—    að hafa upplýsingar um endurmenntun og fullorðinsfræðslu í landinu, standa fyrir útgáfu upplýsingarita og hafa í því sambandi samskipti við stofnanir, fyrirtæki og félög,
—    að stuðla að lágmarkssamræmingu,
—    að stuðla að mati faglegra gæða endurmenntunarnámskeiða,
—    að stuðla að samstarfi við skólakerfið,
—    að sjá um mat á námi í endurmenntun og fullorðinsfræðslu yfir í formlega skólakerfið,
—    að hafa samstarf við kennaramenntunarstofnanir um menntun fyrir kennara í símenntun (námskeið),
—    að gefa út leiðbeiningar fyrir símenntunarkennara, veita þeim ráðgjöf o.s.frv.

     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirrar fræðslu sem fjallað er um í lögum um fullorðinsfræðslu.
     Í þriðja kafla laganna yrðu ákvæði um að ríki, sveitarfélög, fullorðinsfræðslusamtök, aðilar vinnumarkaðarins, félagasamtök og einstaklingar hafi forgöngu um fullorðinsfræðslu. Sett verði sérstök reglugerð er feli í sér almennar reglur um þau skilyrði sem fullorðinsfræðsluaðili þarf að uppfylla til að vera gjaldgengur styrkþegi. Megininntakið er að draga ekki úr frumkvæði aðila utan skólakerfisins. Fullorðinsfræðsluráð stýrir ekki fræðslustarfi slíkra aðila en hefur á hendi upplýsingaskyldu og deilir út því fjármagni sem til fullorðinsfræðslu rennur frá ríkinu ár hvert.
     Í fjórða kafla yrði fjallað um fjármál. Það er almennt stefnumið að nemandi greiði ekki meira en sem nemur þriðjungi af kennaralaunum. Veitt yrði fé til þjálfunar leiðbeinenda, svo og til þróunarstarfs, og tekið fram við hvaða almennar reglur launakjör leiðbeinenda skuli miðast þegar styrkur er veittur. Aðili, sem annast fullorðinsfræðslu, sendir árlega inn áætlun um kennslumagn og fær fyrirheit um fjárveitingar í því ljósi. Að námskeiði eða námsönn lokinni sendir hann uppgjör ásamt nemendaskrá og fær greiddan út styrkinn í samræmi við það.
     Hér kæmi til álita að setja inn ákvæði um greiðslu vinnutaps enda yrði samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um það efni.

III. Samtenging fullorðinsfræðslu og laga um starfsmenntun í atvinnulífinu.


    Eins og áður er komið fram leggur viðræðunefndin til að fullorðinsfræðslan og starfsmenntun í atvinnulífinu verði tengd með skipun fullorðinsfræðsluráðs. Ráðið verði vettvangur upplýsingamiðlunar um menntunarframboð fyrir fullorðina. Enn fremur verði í lögum um fullorðinsfræðslu og lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu tilvísanir á milli laganna til að tryggja lágmarkssamræmingu.

IV. Lokaorð.


    Viðræðunefndin leggur ríka áherslu á náið samráð á milli félagmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins þegar og ef lög um framangreind málefni verða undirbúin. Þetta mætti t.d. tryggja með því að fulltrúi menntamálaráðuneytisins taki sæti í nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði til að semja lög um starfsmenntun í atvinnulífinu og fulltrúi félagsmálaráðuneytis í nefnd sem menntamálaráðherra skipaði til að semja lög um fullorðinsfræðslu.